Heilsurannsóknin: Grunnrannsókn
Þátttakendum Heilsurannsóknarinnar verður boðið að gangast undir neðangreindar skoðanir og rannsóknir.
Allar rannsóknir sem verða gerðar í Heilsurannsókninni verða framkvæmdar samkvæmt viðurkenndum stöðlum. Allar skoðanir og rannsóknir verða gerðar af þjálfuðum heilbrigðisstarfsmönnum í umsjón læknis sem er ávallt til staðar og starfar í ábyrgð ábyrgðarlæknis rannsóknarinnar. Rannsóknir verða ekki gerðar hjá einstaklingum sem eru bráðveikir eða með virka alvarlega sjúkdóma eða aðrar sértækar frábendingar. Álagspróf verður ekki gert hjá einstaklingum sem eru með brjóstverki frá hjarta í hvíld eða aðrar frábendingar. Ástæður til að gera ekki grunnrannsóknina í heild sinni, álagspróf eða aðra einstakar rannsóknir verða metnar í hvert sinn í samráði við lækni.
LÍFSMÖRK
Sitjandi og standandi blóðþrýstingsmæling í handlegg, súrefnismettun og hitamæling, bæði kjarnahiti (mældur með eyrnamæli eða snertilausum innrauðum hitamæli) og útlimahiti (mældur með snertilausum innrauðum hitamæli).
HUGUR
(Taugasálfræðipróf)
Hluti af eftirfarandi taugasálfræðiprófum verður lagður fyrir þátttakendur: stroop (5 mín), trail making test (5 mín), category and letter fluency (7 mín), rapid visual information test (7 mín), spatial working memory (10 mín), logical memory (10 mín), matrix reasoning (10 mín). Prófið verður hannað þannig að fyrirlögnin taki að meðaltali 30 mínútur fyrir hvern þátttakanda en prófandinn fyllir einnig út spurningalistann GAF (global assessment of functioning). Ef skimunin sýnir tiltekin frávik kann viðkomandi að verða boðið nánari skoðun með fleiri prófum. Þessi próf voru notuð í doktorsverkefni Brynju B. Magnúsdóttur (leyfi VSN 03-018 ) og í verkefninu Rannsóknir á áhrifum erfðabreytileika í erfðamenginu (leyfi VSN XXX).
TAUGAR
(Taugaleiðnipróf)
Taugaleiðniprófið er framkvæmt með taugaleiðnimæli (DPNCheck) sem mælir bæði hraða og styrk taugaboða í úttaug í fæti neðan við ökkla (sural taug). Á tækinu er lítið rafskaut sem örvar taugina með vægu rafboði og nokkrum sentimetrum frá er nemi sem mælir styrk rafleiðninnar um taugina. Rafvirkni taugarinnar er þannig mældur með bæði styrk rafboðs og leiðnihraða á milli rafskauts og nema. Prófið hefur verið staðlað og frávik gefa til kynna mögulega taugakvilla svo sem byrjandi taugaskemmdir af völdum sykursýki (http://www.dpncheck.com/learn-about-dpncheck/learn-about-dpncheck.html). Þátttakendur verða varir við rafstuðið sem vægt högg á taug, en prófið er að öðru leyti skaðlaust og tekur nokkrar mínútur. Þetta próf er nú gert í rannsókninni XXX (leyfi VSN XXX).
SJÓN
(Augnrannsóknir)
Hér verða gerðar víðtækar augnrannsóknir, meðal annars mælingar á sjónskerpu, hornhimnuþykkt, augnþrýstingi, sjónlagi, sjónsviði og teknar myndir og sneiðmyndir af sjóntaugum og sjónhimnu. Þetta eru allt skaðlausar og hefðbundnar rannsóknir sem taka samanlagt 15-20 mínútur.
Í einstaka tilvikum kann að vera nauðsynlegt að taka æðamyndir af sjónhimnu en þá er fluorescein efni dælt í cubital æð og myndað þegar efnið fer um æðakerfi sjónhimnu. Einnig kunnum við að gera í völdum tilfellum raflífeðlisfræðilegar rannsóknir á sjóntaug og sjónhimnu t.d. sjónhimnurit og sjónurit svo og skynnæmispróf (psychophysica tests) svo sem könnun á rökkuraðlögun og litaskyni. Þessar rannsóknir geta tekið 30-60 mínútur.
HEYRN
(Heyrnarmæling)
Hér verða gerðar mælingar á næmi beggja eyrna, við mismunandi styrk (dB) og tíðni (Hz) hljóðs.
RÖDD OG LESTUR
(Radd-, tal- og lestrarmælingar)
Þátttakendur verða beðnir um að gefa hljóðdæmi af völdum sérhljóðum og orðum. Gerðar verða upptökur af hljóðdæmunum og þær notaðar í mælingar sem varpa ljósi á einstaklingsmun í rödd (raddböndum: t.d. F0 og F0 flökt) og tali (talfærum: t.d. formendum sérhljóða). Einnig munu þátttakendur lesa stuttan texta sem er notaður er rannsóknum á lesblindu og verður sú upptaka notuð til að mæla lestrarhraða og gefa betri innsýn í rödd og tal. Mælingarnar taka um 5 mínútur og eru skaðlausar.
HJARTA OG ÆÐAR
(Hjarta- og æðarannsóknir)
12 leiðslu hjartalínurit verður gert og blóðþrýstingur mældur bæði í handlegg og ökkla með hefðbundum blóðþrýstingsmæli og æðadoppler (8 MHz). Þetta eru hefðbundnar mælingar sem taka samanlagt um 10 mínútur. Þátttakendum verður boðið álagspróf á þrekhjóli með hjartalínuriti og lítilli grímu sem fer yfir nef og munn. Afkastageta hjarta og vöðva verður mæld ásamt súrefnisupptöku lungna. Þá verður hjartalínurit í áreynslu metið.
ÖNDUN
(Öndunarmælingar)
Fráblástursmæling mælir heildarfráblástursgetu (FVC) og fráblástur á einni sekúndu (FEV1) og hlutfallið á milli þessa tveggja stærða (FEV1/FVC).
Loftskiptamæling (DLCO) mælir flutning súrefnis frá andrúmslofti til
lungnablóðrásar. Viðkomandi andar að sér litlu magni af mælilofttegund og heldur andanum niðri í 10 sek, andar svo frá sér og tæmir vel. Styrkleiki CO (carbon monoxide) og mælilofttegundar í útöndunarlofti er mældur í byrjun mælingar og aftur eftir 10 sek. Þannig er reiknað út hversu mikið CO fer frá lungnablöðrum yfir í háræðanet lungna. Því lægri gildi þeim mun léglegri loftskipti. Í sumum tilfellum verður gerð lungnarúmmálsmæling (TLC, FRC) með þynningaraðferð þar sem andað er að sér helíumblöndu. Þessi aðferð mælir virkt lungnarúmmál eða það lungnarúmmál sem tekur þátt í loftskiptum. Þessar rannsóknir eru skaðlausar og hefbundnar og taka innan við 10 mínútur. Þessi próf eru nú gerð í rannsókninni XXX (leyfi VSN XXX)
LÍKAMSSTÆRÐIR
(Líkamsstærðar- og hlutfallamælingar)
Hæð og líkamsþyngd verða mæld á hefðbundinn hátt. Sérstakur líkamsskanni (Jaeschke L, 2015) verður notaður till að mæla útlimalengd, vænghaf, ummál mittis og mjaðma, rúmmál líkamans og aðrar yfirborðsbreytur (ummál/fjarlægðir). Skanninn varpar ljósneti, ýmist hvítu eða rauðu ljósi (structured light system), yfir líkamann og skynjar aflögun netsins á yfirborði líkamans sem þrívíddarmynd. Skönnunin skilar þrívíddar mynd af öllu yfirborði líkamans með gagnaþéttni sem nemur allt að 75 punktum á fersentimetra. Skönnunin skilar ekki ljósmynd af líkamanum. Þátttakendur verða beðnir um að stíga inn í sérútbúinn klefa sem inniheldur líkamsskannann. Þátttakandinn stendur á nærfötum í skannanum með axlarbreidd milli fóta og beina handleggi 25-30 gráður frá bol, lófar vísa fram, háls beinn og horft beint fram. Ef þörf krefur verða þátttakendur með mikið höfuðhár beðnir að setja upp sundhettu til að fá sem besta mynd af höfði. Það er ekki þörf á hlífðargleraugum. Heildartími mælingarinnar er áætlaður um 5 mínútur. Skönnunin sjálf tekur einungis 1-2 sekúndur en þátttakandi þarf tíma til að afklæðast, koma sér fyrir í skannanum og klæða sig aftur skönnun lokinni. Þátttakendum er frjálst að velja hefðbundnar mælingar með málbandi í stað líkamsskannans og þá verða gerðar færri mælingar: höfuðummál, standandi og sitjandi hæð, vænghaf, mittis- og mjaðmaummál. Þá verða teknar ljósmyndir af höndum og andliti til að mæla fjarlægðir og hlutföll eins og nú er gert í rannsókninn XXX (leyfi VSN XXX). Eftir að mælingar hafa verið gerðar og myndirnar metnar að fullu þá verður myndunum eytt. Slitgigt í höndum verður metin af myndunum (Marshall M, 2014).
BEINÞÉTTNI OG SAMSETNING
(Beinþéttni og líkamssamsetning)
Beinþéttni verður mæld með sérstöku tæki sem notar röntgengeisla til að meta magn steinefna beins í grömmum á fersentimetra, DXA (dual-energy X-ray absorptiometry, tvíorkudofnunarmæling) eins og nú er gert í rannsókninni XXX (leyfi VSN XXX). Beinþéttni er mælikvarði á beinþynningu og segir til um áhættu á beinbrotum við lítinn áverka. Tækið gefur einnig upplýsingar um hlutfallslegt magn mismunandi líkamsvefja eins og hlutfall vöðva og fitu og fitudreifingu í líkamanum. Þessar mælingar taka um 5 mínútur. Við beinþéttnimælinguna er notaður röntgengeisli en geislunin er sambærileg við 2–3 daga náttúrlega bakgrunnsgeislun á Íslandi.
GRIPSTYRKUR
(Gripstyrkur)
Jafnlengdar (isometric) gripstyrkur handa verður mældur með Jamar (eða svipuðum) mæli. Sýnt hefur verið að gripstyrkur hefur nokkuð góða fylgni við vöðvastyrk í öðrum líkamshlutum (Sinaki M, 2001; Visser M, 2000).